Mér finnst svo frábært hvað það er hægt að matreiða fisk á marga vegu. Það er mjög misjafnt hvernig við matreiðum fiskinn á mínu heimili. Í kvöld langaði mig að hafa hann í umslagi með einhverju góðmeti. Þar sem við vorum bara tvö í mat notaði ég aðeins eitt flak af fiski. Uppskriftin miðast því við tvær manneskjur að þessu sinni. Það er bæði hægt að nota álpappír eða bökunarpappír fyrir umslagið. Ef pappír er notaður þá þarf að loka umslaginu með matargarni.
Hráefni:
Fiskflak
1 tómatur
½ brokkolí haus
½ sítróna
Sítrónupipar, salt og 1 hvítlauksrif
5 kartöflur
Skerið kartöflurnar í báta, skolið alla sterkju af þeim. Sjóðir kartöflurnar í saltvatni í ca 10 mín. Hellið vatninu af og setjið þær í eldfastmót. Setjið smá af olíu yfir ásamt, salti, pipar og rósmarín.
Skerið fiskinn í hæfilega bita, eitt flak ætti að fara í 4 bita (fer reyndar eftir stærð flaksins).
Klippið pappírinn í hæfilega stærð, best er að nota tvö blöð.
Setjið fiskbitana á pappírinn, kryddið með stítrónupipar og grófu salti, raðið tómatsneið ofan á setjið aftur fisk, krydd og tómt. Raðið upp tveimur turnum. Setjið brokkolíið ofan á og til hliðar. Kreistið sítrónuna yfir ásamt 1 hvítlauksrifi. Setjið smá dass af olíu ofan á allt og lokið umslaginu. Bindið saman með garni.
Mér finnst best að hafa umslagið í fati meðan það bakast í ofninum.
Bakist við 200 gr. Í 30 mín.
Ég útbjó léttari útgáfu af Tahini sósu sem meðlæti.
2 tsk sesamfræ
1 tsk hunang
Dass af AB mjólk
Smá búnt af saxaðri steinselju
Maukið sesamfræin vel í mortéli, alveg þangað til smellirnir í fræjunum hætta og aðeins lengur. Þá verða fræin að þykku mauki, setjið yfir í skál og blandið restinni við. Hrærið öllu vel saman og setjið steinselju saman við ef þið eigið hana til.
Léttur og góður réttur.
Verði ykkur að góðu.