Núna í byrjun árs ákváðum við að hafa kjúklingarétt, við skoðuðum margar af þeim uppskriftum sem við eigum og eftir að hafa breytt og bætt þá varð þessi réttur til.
Hráefni:
Kjúklingakjöt, bringur um 1 kg.
Smjör og olíu til steikingar.
sólþurrkaðir tómatar og smá olía úr krukkunni ( 4 stk. og smá af olíunni í krukkunni )
2 hvítlauksrif
4 msk Mango Chutney
2-3 dl vatn
1/2 teningur af kjúklingakrafti
2 -3 dl matreiðslurjómi
1 dós sýrður rjómi
smá biti af ferskum engifer
1 laukur, skorinn smátt
nokkrir sveppir
Við byrjuðum á því að skera kjúklingabringurnar niður í passlega bita, krydduðum og steiktum á pönnu.
Létum malla smá stund á pönnunni undir loki, tókum bitana af og settum til hliðar höfðum steikingarvökvann/feitina áfram á pönnunni, steiktum sveppina en létum laukinn bara svitna.
Settum sólþurrkaða tómata, olíuna af þeim, hvítlauk, engifer og Mango chutney í skál og notuðum töfrasprota til að mauka þetta. Maukið sett út á pönnuna og blandað vel við vökvann sem var á henni, laukinn og sveppina. Settum síðan sýrða rjómann á pönnuna og öllu hrært vel saman næst helltum við vatninu og rjómanum útí. Létum sjóða rólega, smökkuðum til með pipar,salti og kjúklingakrafti, þykktum aðeins með sósuþykkjara, létum síðan kjúklingabitana út í og létum hitna vel í gegn.
Með þessu rétti vorum við með Bankabygg frá Vallanesi og ofnsteikt grænmeti.
Grænmetið sem við notuðum voru gulrætur, laukur, sætar kartöflur, nípur, selleryrót, sveppir og rauð paprika.
Við krydduðum þetta með salti og pipar, Rosmarin, Salvíu, Fafnisgrasi og Hvitlaukspipar.
Helltum olíu yfir og veltum grænmetinu upp úr kryddinu og olíunni. Settum allt grænmetið í eldfast mót, settum smá smjörklípu ofan á og inn í ofn í um 50 mínútur, hrærðum 2-3 í blöndunni yfir steikingartímann.
Ég hvet ykkur til að prófa þennan góða rétt, hann kemur skemmtilega á óvart.