Ég ólst upp við sama eftirréttinn á aðfangadagskvöld alla mína barnæsku. Það var ekki af því að foreldrarnir mínir voru svo vanafastir. Heldur vorum það við systikinin sem vildum ekki sleppa takinu af eftirréttinum. Eftir að ég fór að halda mín eigin jól þá stend ég mig að því að mig langar ennþá jafn mikið í þennan eftirrétt. Rétturinn samanstendur af svissneskum marengskökum, mars íssósu og ís. Það er ekki verra ef nokkur fersk jarðaber fá að slæpast með.
Mig langaði aðeins að breyta til, setti ég því toppana í smá sparidress.
Svissneskir marengstoppar
3 eggjahvítur
150 gr. Sykur
Aðferð: Stífþeytið hvíturnar og bætið sykrinum smátt og smátt við, matarlitur settur út í, í lokin. Sett í sprautupoka og sprautan á pappírsklædda plötu.
Bakað við 125 í 1 klst.
Meðan topparnir bakast þá er gott að bræða súkkulaðihjúpinn yfir vatnsbaði við lágan hita. Takið pottinn af hellunni þegar súkkulaðið er bráðið og geymið til hliðar. Setjið kökuskraut í litla skál. Þegar topparnir eru bakaði, takið þá einn topp í einu og dýfið í súkkulaðibráðina og dýfið létt að lokum í kökuskrautið.
Setjið toppana því næst á t.d. stóran disk eða kalda plötu meðan súkkulaðið tekur sig.
Njótið og munið að brosa, ég veit að börnin munu gera það sem fá þessa toppa á ísinn sinn.
Gleðilega hátíð