Heimagert pestó er yndislega gott. Ég kaupi aldrei tilbúið í krukku. Heldur bý ég það til sjálf frá grunni og leik ég mér oft með uppskriftina.
Hérna er góð uppskrift, þessi uppskrift er rífleg.
Ferskt basil, 3-4 lúkur
2-3 hvítlauksgeirar
100 gr furuhnetur
150 gr Parmesan
um það bil 3 dl olía
salt og pipar
Aðferð:
Hreinsið basil, þerrið. Myljið hnetur í matvinnsluvél, bætið basil og hvítlauk saman við. Næst er Parmesan bætt saman við og saltað og piprað. Þá er matvinnsluvélin sett á lægsta hraða og olíunni bætt við hægt og sígandi. Nú er hægt að bera sósuna fram eða setja á krukkur og geyma. Athugið að ef ekki á að nota sósuna strax er æskilegt að setja hana strax á ílát (til dæmis gamlar sultukrukkur) og loka fyrir þar sem pestóið missir lit ef það er lengi í snertingu við súrefni. Fyllið á krukkurnar með olíu ef þarf.
Þetta er sígild pasta-sósa og hentar vel með spagettí, tagliatelle eða linguine-pasta. Raunar á hún vel saman við allt pasta. Hana er gott að nota eina og sér með pasta, eða þá ásamt grænmeti, fiski (t.d. smálúðu) eða öðru sem manni dettur í hug. Pestó á einnig vel við kartöflur og er tilvalið með kartöflu-gnocchi.
Þessa grunnuppskrift má útfæra á óendanlega vegu. Nota má aðrar kryddjurtir en basil, t.d. steinselju eða óreganó. Í Toskana er steinselja gjarnan notuð og þá einnig valhnetur í stað furuhnetna. Góð blanda er steinselja og basil til helminga.
uppskrift fengin frá vinotek.is
Bakvísun: Hinn fullkomni sumarréttur, guðdómlegt sítrónu- steinseljubragð | Heimilismatur