Fylltar marengsrósir
Mér fundust marengsrósirnar hennar Thelmu Þorbergs inni á gott í matinn
svo dásamlega fallegar og voru þær því áskoruna helgarinnar hjá mér. En þar sem ég á ekki Wilton sprautustútana þá urðu mínar ekki eins fallega en bragðið er ekki síðra.
Ég hef oft bakað marengs en aldrei áður notað lyftiduft í hann og það kom svo sannarlega á óvart. Ég mun framvegis notast við lyftiduft á ný.
Hráefni:
6 eggjahvítur
400 g ljós púðursykur
1 tsk. lyftiduft
Þeytið eggjahvíturnar og púðursykurinn þangað til blandan er orðin stíf og þétt. Bætið svo saman við lyftidufti og hrærið vel. Setjið matarlit að eigin vali saman við marengsinn og hrærið þangað til matarliturinn hefur blandast vel saman við. Setjið smjörpappír á bökunarplötu. Setjið marengsinn í sprautupoka með sprautustút nr. 1M (eins og myndin sýnir hér að ofan) og sprautið fallegar rósir á bökunarplötu, rósirnar eru á stærð við litla undirskál.
Bakið við 150°C í u.þ.b. 30 mín. eða þar til marengsinn hefur bakast alveg og er þurr í viðkomu. Kælið marengsinn alveg.
Súkkulaðikrem
3 eggjarauður
100 g flórsykur
150 g dökkt súkkulaði
25 g smjör
1 tsk. vanilludropar
Þeytið eggjarauðurnar þangað til þær eru orðnar aðeins ljósar. Bætið svo flórsykrinum saman við og hrærið þangað til blandan er orðin ljós og létt. Bræðið súkkulaðið saman við smjörið í potti yfir lágum hita og blandið því vel saman við blönduna. Bætið því næst vanilludropum saman við og hrærið vel. Setjið u.þ.b. 2-3 msk. af súkkulaðinu á hverja köku fyrir sig, eða eins mikið og þú villt! Einnig er hægt að setja það ofan á kökurnar.
Fylling
500 ml. rjómi
6 kókosbollur
1 poki Nóakropp ( ég sleppti því)
Þeytið rjómann þangað til hann stendur alveg og setjið ofan á botninn. Setjið slatta af Nóakroppi ofan á rjómann, skerið hverja kókosbollu í tvennt og setjið ofan á, bætið smá rjóma ofan á hverja kókosbollu og setjið svo marengsrós ofan á og þrýstið lauslega saman.
Geymið í kæli þar til borið er fram.
Þar sem liti Emil Nói minn fékk einnig eftirrétt,
þá gerði ég minni toppa og setti á milli hjá honum, súkkulaðikrem og rjóma. Hann varð ljómandi glaður og að sjálfsögðu kláraði hann allan eftirréttinn sinn.